Lög STÚA
L Ö G S T Ú A
1. grein:
Félagið heitir STÚA, og er félag starfsmanna Útgerðarfélags Akureyringa ehf. ( ÚA ) á Akureyri.
Heimili þess og varnarþing er á Akureyri.
2. grein:
Tilgangur félagsins er: Að stuðla að ýmsu félagsstarfi, t.d. skemmtanahaldi, menningar- og fræðslustarfi.
3. grein:
Rétt á aðild eiga starfsmenn ÚA og þeir starfsmenn Samherja sem starfstöð hafa hjá ÚA. Umsóknum skal skila til ritara félagsins. Hætti félagsmaður störfum, missir hann um leið félagsréttindi sín.
Fyrrum starfsmenn sem verið hafa félagar í STÚA geta orðið aukafélagar samkvæmt sérstakri reglugerð þar að lútandi. Ritari skal bera ábyrgð á félagaskrá.
4. grein:
Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en í febrúar ár hvert.
Til hans skal boða með auglýsingu á vinnustað með minnst viku fyrirvara.
Tilnefningar og framboð til formanns og stjórnar skulu liggja fyrir með minnst tveggja daga fyrirvara.
Dagskrá fundarins skal vera:
1. Fundarsetning.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Reikningar félagsins.
5. Lagabreytingar, hafi tillögur borist þar að lútandi.
6. Kosningar:
a. Formaður ( þegar við á )
b. Aðrir stjórnarmenn og þrír til vara.
c. Tveir endurskoðendur og einn til vara.
7. Ákvörðun um árgjald.
8. Önnur mál.
9. Fundarslit.
5. grein
Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Atkvæðisrétt hafa allir skuldlausir félagsmenn. Tilnefna skal starfsmenn í embætti stjórnar og endurskoðenda og kjósa leynilegri kosningu. Aðrar atkvæðagreiðslur skulu fara fram leynilega, ef fundarmenn óska þess. Allar fundargerðir skulu færðar í sérstaka fundargerðabók.
6. grein
Árgjald félagsins verði ákveðið á aðalfundi ár hvert og ákvörðun þess vera sérstakur liður á dagskrá fundarins. Heimilt er að draga þau frá launum félagsmanna við hverja útborgun. Stjórn félagsins er heimilt að hafa veitingar á fundum, enda komi það fram í reikningum félagsins.
7. grein
Stjórn félagsins skipa fimm menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Auk þess þrír varamenn. Stjórn setur sér starfsreglur.
Formann skal kjósa sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Kjörtímabil formanns er tvö ár, annarra stjórnarmanna tvö ár. Endurskoðendur reikninga eru tveir og einn til vara. Kjörtímabil þeirra skal vera eitt ár.
8. grein
Stjórn félagsins skal annast öll mál þess milli aðalfunda, sem eru æðsta vald félagsins. Hún skipar nefndir ef og þegar hún telur þess þörf. Félagsmönnum er skylt að taka sæti í þeim nema fram komi ástæður, sem stjórnin tekur gildar. Enginn er skyldaður að sitja í félagsstjórn eða nefnd lengur en eitt ár í senn.
9. grein
Stjórn félagsins heldur fundi svo oft sem hún telur þörf á. Stjórninni er skylt að boða til félagsfundar ef 20 eða fleiri félagsmenn fara fram á það skriflega. Slíkir fundir skulu auglýstir með minnst þriggja daga fyrirvara. Skal dagskrá fundarins tekin fram í auglýsingu. Þremur stjórnarmönnum er heimilt að undirrita skuldbindingar fyrir félagið, formanni og tveimur úr stjórn.
10. grein
Lagabreytingar fara aðeins fram á aðalfundi félagsins, og skulu þær hafa verið boðaðar á dagskrá fundarins. Þær skoðast samþykktar ef þær hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða. Um almenn mál ræður meirihluti atkvæða úrslitum.
11. grein
Aðalfundum og öðrum félagsfundum stjórnar sérstakur fundarstjóri, sem fundurinn kýs.
12. grein
Reikningsár félagsins skal vera frá 1. janúar til 31. desember.
13. grein
Meirihluta stjórnar er heimilt á stjórnarfundi að kjósa félagsmann eða fyrrverandi félagsmann heiðursfélaga STÚA hafi tilnefning þess efnis borist. Aðalfundur félagsins getur einnig tilnefnt og kjörið heiðursfélaga.
Heiðursfélagi ber engar fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart félaginu.
14. grein
Félagið á og rekur orlofshúsið Lyngholt í Aðaldal. Stjórn er heimilt að skipa nefnd til að sjá um umsjón og tiltekin atriði í rekstri hússins skv. sérstakri reglugerð þar um. Húsið skal leigt út til félagsmanna. Ekki er heimilt að selja húsið eða framselja til annarrar notkunar nema að undangenginni samþykkt aðalfundur félagsins. Komi fram slík tillaga skal hún auglýst sérstaklega í fundarboði og ákvörðun samþykkt af ¾ hlutum félagsmanna. Stjórn ber ábyrgð á úthlutunar- og leigureglum og á rekstri hússins.
15. grein
Hætti félagið störfum, skal innan 6 mánaða frá slitum þess, gera upp eignir þess og andvirðið látið renna til góðgerðarmála á Akureyri. Aðalfundur félagsins getur ákveðið að slíta félaginu, enda sé slík ákvörðun samþykkt af ¾ hlutum félagsmanna og að það sé sérstaklega tekið fram að í fundarboðinu að taka eigi slíka ákvörðun.
Náist ekki næg mæting á slíkan aðalfund og ef ¾ hlutar fundarmanna samþykkja að slíta félaginu skal boða til aukaaðalfundar eins og um aðalfund væri að ræða og ástæða tilgreind í fundarboði. Á þeim fundi nægir að ¾ hlutar fundarmanna samþykki tillögu um slit félagsins til að hún nái fram að ganga.
samþykkt á aðalfundi STÚA 2. mars 2023