SAGA STÚA
UPPHAFIÐ
Snemma árs 1982 vaknaði áhugi á stofnun félags starfsmanna Útgerðarfélags Akureyringa hf. Aðalhvatamaðurinn að stofnun þess var Karl Hinriksson. Fékk hann nokkra starfsmenn til liðs við sig. Talsmaður undirbúningsnefndar var Erna Magnúsdóttir. Auk þeirra Karls og Ernu voru það einkum fimm starfsmenn, þáverandi félagar í JC Súlum og JC Akureyri, sem stóðu að undirbúningnum. Það voru þeir Ásgeir Arngrímsson og Hallgrímur Gíslason, sem sömdu drög að fyrstu lögum félagsins, jafnframt því sem þeir rituðu fundargerð og stýrðu stofnfundi, Örn Ingvarsson, fyrsti formaður félagsins, Guðjón Stefánsson sem átti sæti í fyrstu stjórninni og Magnús Sigurðsson.
STOFNAÐ
Þann 20. apríl 1982 var stofnfundur félagsins, sem í dag heitir STÚA, haldinn í kaffistofu Útgerðarfélagsins. Fundinn setti Gísli Konráðsson, annar af framkvæmdastjórum félagsins, og kom þá þegar í ljós að STÚA naut mikillar velvildar framkvæmdastjóranna, þeirra Gísla og Vilhelms Þorsteinssonar. Á fundinn mættu 56 starfsmenn og kom fram að 217 starfsmenn höfðu skrifað sig á stofnfélagaskrá. Á fundinum voru samþykkt fyrstu lög félagsins og kosin fyrsta stjórn þess.
TILGANGURINN
Tilgangur félagsins var þá sem nú, eins og fram kemur í lögum þess: ,,Að stuðla að ýmsu félagsstarfi, t.d. skemmtanahaldi, menningar- og fræðslustarfi”.
Í fyrstu beitti félagið sér einnig nokkuð fyrir hagsmunamálum starfsfólks og sem dæmi um það má nefna að strax á fyrsta stjórnarfundinum var samin áskorun og afhent framkvæmdastjórum ÚA að fundinum loknum, þar sem m.a. var áréttað það ástand, sem orðið var á kaffi- og matstofu félagsins. Þar sem lengi hafði legið fyrir að endurnýja ætti kaffistofuna, var spurst fyrir hvort ekki stæði til að hefja framkvæmdir bráðlega. Einnig var bent á að útvarpsmál hússins væru í ólestri. Annað mál var lengi í umræðunni, en það var pólítískir fundir í kaffitímum. Starfsfólk ÚA hafði samþykkt á fundi að banna ætti slíka fundi, þar sem starfsfólkið ætti sjálft sína kaffitíma og þyrfti ekki að hlusta á pólítískan áróður. Stjórn Útgerðarfélagsins fól framkvæmdastjórum að semja almennar reglur sem giltu um slíka fundi í framtíðinni og skyldu reglurnar settar í samvinnu við Starfsmannafélagið. Stjórn STÚA sendi frá sér einróma ályktun þar sem tekið var á þessu máli. Eitt mál enn frá seinni árum má nefna en það varðaði sölu á hlut Akureyrarbæjar í Útgerðarfélaginu og umræður sem urðu um afurðasölu ÚA. Voru starfsmenn ÚA uggandi um sinn hag og félagsins og á aðalfundi STÚA 1995 var samþykkt ályktun þar sem bæjarstjórn og stjórn ÚA voru áminnt um að hafa hagsmuni ÚA í heiðri við ákvörðunina. Í framhaldinu fór af stað undirskriftasöfnun þar sem nær allir starfsmenn skrifuðu sig.
Öll ofantalin mál eru í raun undantekningar þar sem ekki hefur þótt samrýmast tilgangi og markmiði STÚA að flækjast inn í slíka hagsmunabaráttu, enda hafa starfsmenn yfirleitt aðrar leiðir til að leita réttar síns og veita málum í annan farveg. Mál hafa því þróast þannig að starfsemi STÚA felst að mestu í að létta líf og tilveru félagsmanna sinna, stendur t.d. fyrir árshátíðum og skemmtunum, ferðalögum og námskeiðum og rekstri sumarbústaðar.
LYNGHOLT
Allt frá stofnun STÚA hafði verið rætt um að félagið eignaðist sumarhús og hafði málið verið tekið upp á aðalfundum og sérstökum félagsfundum. Þann 5. maí 1989 var öllu starfsfólki ÚA boðið í kaffi í tilefni þess að Gísli Konráðsson, var að láta af störfum sem framkvæmdastjóri. Þar tilkynnti stjórnarformaður ÚA að fyrirtækið ætlaði að gefa STÚA sumarbústað og skyldi Starfsmannafélagið velja honum stað. Eftir nokkra leit var honum valinn staður í landi Núpa í Aðaldalshrauni, þar sem hann var reistur og valið nafnið Lyngholt. Haustið 1993 var sett upp vatnslögn í húsið, svo hægt væri að nota húsið sem heilsárshús. Garðar Helgason var umsjónarmaður framkvæmda, sem og oft áður. Síðan hefur verönd verið stækkuð og komið fyrir heitum potti. Leggur félagið metnað sinn í að halda húsi og umhverfi sem allra bestu og viðhalda búnaði eftir bestu getu.
Stjórnin & starfið
Á síðari árum hafa engin alvarleg átök um starf STÚA komið upp, þótt oft heyrist gagnrýnisraddir. Þó stjórnir Starfsmannafélagsins hafi í gegnum tíðina reynt að uppfylla óskir félaga sinna eftir fremsta megni og bjóða upp á sem fjölbreyttast starf, þá segir það sig sjálft að í svo stóru og fjölmennu félagi sem STÚA, hljóta alltaf að vera uppi skiptar skoðanir á því sem gert er og hvernig það er gert, enda er trúlega útilokað, að gera öllum fyllilega til hæfis þar sem áhugamál fólks eru eðlilega mjög misjöfn. Þess má að lokum geta að stjórnir STÚA styðjast ævinlega við markmið og stefnu félagsins, lög þess, vinnureglur og samþykktir aðalfunda við allar ákvarðanatökur.
Byggt m.a. á kafla eftir Hallgrím Gíslason úr:
„Steinn undir framtíðar höll“ / Saga Útgerðarfélags Akureyringa hf. 1945 – 1995.
í ágúst 2001
Stjórn STÚA