Vel heppnuð ,,fjölþjóðahátíð"

Haust - gleðin 2007 var haldin í sal BRIMS sl. laugardag, 13. október. Hátíðin var að þessu sinni með fjölþjóðlegu sniði.

Starfsmenn BRIMS á Akureyri, sem upprunnir eru í allt að níu löndum, þ.m.t. Íslandi, hafa undanfarnar vikur verið að undirbúa og skipuleggja kvöldið í samvinnu stjórnar STÚA, BRIMS og Alþjóðastofu á Akureyri. Hlaðborð kvöldsins samanstóð af fjölbreyttum réttum frá Taílandi, Filippseyjum, Lettlandi, Póllandi, Hvíta-Rússlandi og Sviss og gerðu félagsmenn og gestir matnum góð skil. Skemmtiatriði voru frá Taílandi og Filippseyjum, bæði dans og söngur, auk þess sem þjóðdansafélagið Vefarinn kom í heimsókn og sýndi íslenska þjóðdansa við góðar undirtektir viðstaddra. Mjög góð þátttaka var á hátíðinni, stór hluti starfsmanna mætti og margir gestir með þeim.