Það gaf á bátinn…

Laugardaginn 7. júní í dagsferð til Húsavíkur og eins og ákveðið hafði verið, var lagt af stað í rétt fyrir kl. hálf tvö með langferðabifreið frá bílastæði Brims. Með í för voru 38 STÚA – félagar og gestir þeirra. Tveir til viðbótar voru teknir með við afleggjarann við flugvöllinn í Aðaldal og taldist því hópurinn 40 manns. Það fékk vægast sagt dræmar undirtektir þegar tilkynnt var um óvæntan viðburð, þ.e. að koma við í bústað félagsins og láta alla þátttakendur ( nema stjórn STÚA ) þrífa svolítið og mála þannig að það var slegið út af borðinu hið snarasta. ( enda e.t.v. ekki mikil alvara í því ).

Þegar komið var til Húsavíkur var rennt rakleiðis niður að höfn og þar beið hópsins báturinn Faldur og starfsmenn Gentle Giants, hvalaskoðunarfyrirtækisins. Eftir stuttan undirbúning þar sem fólk var gallað upp og börnin sett í björgunarvesti, var siglt áleiðis út á Skjálfandaflóa undir öruggri stjórn kapteins Bessa og ágætri leiðsögn Daniels. Siglt var vestur undir Kinnarfjöll og þar sáust tilsýndar 2-3 hnísur sem ekki höfðu minnsta áhuga á að láta skoða sig. Fljótlega eftir það, þegar farið var að keyra til baka, fór að gusast örlítið yfir mannskapinn en þó margir hafi orðið svolítið sjóblautir og kaldir var það væntanlega engum til skaða enda með eindæmum hraustur hópur. Síðan fór nú að hægast um aftur og þá var boðið upp á kakó og kleinur sem rann ljúflega niður. Loks kom að því sem beðið var eftir en þá sást til nokkurra hrefna og má segja að þá hafi „fyrirhöfnin“ verið þess virði.

Eftir rúmlega þriggja klst. siglingu var endað aftur í Húsavíkurhöfn og drifið sig á veitingastaðinn Sölku og þar sem hópsins beið þríréttuð máltíð. Í stuttu máli er óhætt að segja að sú máltíð stóð fyllilega undir nafni, vel útilátin, með eindæmum góð og ekki spillti lipur og elskuleg þjónusta og hlýlegt umhverfi. Það var þreyttur en ánægður hópur sem hélt heimleiðis þegar farið var að líða á laugardagskvöld. 

Einnig má sjá ítarlega myndasyrpu á myndasíðunni okkar.