Minning
Birtist í Morgunblaðinu 17. júlí 2024
Það er með miklum trega og söknuði sem ég kveð félaga og samstarfsmann til áratuga. Garðar hóf störf hjá Útgerðarfélagi Akureyringa 15 ára gamall, vann þar alla sína starfsævi og lagði sig ætíð eftir góðum starfsanda og félagslífi.
Hann kom að heilum hug að starfi Starfsmannafélags ÚA, STÚA. Þegar félagið var stofnað 20. apríl 1982 og tók hann sæti sem varamaður í fyrstu stjórn félagsins. Garðar sinnti margskonar skyldum og gegndi alla tíð ýmsum trúnaðarstörfum.
Þegar ÚA gaf starfsmannafélaginu sumarbústað í Aðaldal 1990 og Gísla Konráðsson og Vilhelm Þorsteinsson, þáverandi framkvæmdastjórar afhentu hann var Garðar annar þeirra sem tók á móti bústaðnum fyrir hönd STÚA. Garðar hafði eftir það að miklu leyti umsjón með viðhaldi og verklegum framkvæmdum við bústaðinn. Sem dæmi má nefna þegar ákveðið var að leggja heilsársvatn í húsið, vegabætur og fleira. Sannaðist í þeim störfum samviskusemi hans og hve virkur og ötull félagsmaður hann var sem og ég álít einnig í öllum þeim störfum sem honum var falið af hálfu fyrirtækisins.
Líklega eiga þau Garðar og Védís einhvers konar þátttökumet þegar kemur að þeim viðburðum sem STÚA stóð fyrir og ferðalögum, bæði innanlands og utan og nánast hægt að ganga að því vísu að þau væru með og margar góðar og ógleymanlegar minningar sem sitja eftir.
Síðast sat Garðar í stjórn starfsmannafélagsins starfsárið 2017 og í maí það ár var hann kjörinn heiðursfélagi STÚA. Við þökkum Garðari samfylgdina og ómetanlegt samstarf.
Elsku Védís, börn og aðrir aðstandendur, fyrir mína hönd og STÚA sendi ég ykkur innilegustu samúðarkveðjur og bið þess að guð og góðar vættir veiti stuðning og styrk á erfiðum stundum.
Óskar Ægir Benediktsson,
formaður STÚA